- Target:
- Ríkisstjórn Íslands
- Region:
- Iceland
- Website:
- www.facebook.com
Styrjöld hefur nú geisað í Jemen í meira en þúsund daga með hörmulegum afleiðingum. Mörg þúsund almennir borgarar hafa látið lífið og milljónir eru á flótta. Stríðið hefur aukið enn á þjáningar jemensku þjóðarinnar, sem voru þó ærnar fyrir. Áður en ófriðurinn braust út þurftu milljónir landsmanna að reiða sig á mannúðaraðstoð vegna hungurs, vatnsskorts og annarra meinsemda.
Öllum meðulum er beitt. Spítalar, skólar, markaðir og moskur eru hiklaust notuð sem skotmörk. Hafnbann sem hernaðarbandalagið hefur sett á Jemen þýðir að ekki er unnt að flytja þangað nauðsynjavörur og hjálpargögn. Hungur er því notað sem stríðsvopn.
Rúmlega átta milljónir manna eru á barmi hungursneyðar og tæpar tvær milljónir barna þjást af bráðavannæringu. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, áætlar að á tíu mínútna fresti deyi barn í Jemen af sjúkdómum og öðrum ógnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.
Við getum ekki lengur staðið hjá og horft með hendur í skauti upp á ofbeldi og hörmungar sem fylgja gleymda stríðinu sem stórveldi heimsins virðast ekki vilja vita af.
Þessa vargöld er hægt að stöðva. Viljinn er allt sem þarf.
Við skorum á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og ríkisstjórn Íslands að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vopnahléi og friðarsamningum í Jemen – með umræðu og frumkvæði í norrænu samstarfi, innan Sameinuðu þjóðanna og í öðrum alþjóðasamtökum.
Ísland hefur áður sýnt að ekki þarf fjölmenni, auð eða her til að láta rödd sína hljóma um heiminn til aðstoðar smáum ríkjum í vanda.
You can further help this campaign by sponsoring it
The Stöðvum stríðið í Jemen petition to Ríkisstjórn Íslands was written by Hrafn Jökulsson and is in the category Human Rights at GoPetition.